Valur jafnaði metin í hnífjöfnu einvígi

Hildigunnur Einarsdóttir, Hildur Björnsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir gefa Karen Knútsdóttur ekki þumlung eftir. Mynd/J.L.Long

Valur jafnaði metin í einvíginu við Fram um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í kvöld með eins marks sigri, 27:26, í Origohöllinni. Hvort lið hefur þar með einn vinning og mætast á nýjan leik á fimmtudagskvöld í Framhúsinu. Valsliðið var marki yfir í hálfleik, 13:12, og hafði naumt forskot stærri hluta leiksins.


Eftir tvær viðueignir er markatalan jöfn, 54:54, og telja má næsta víst að framhald verði á jöfnum viðureignum.


Framliðið hóf leikinn mun betur og var með yfirhöndina framan af, ekki síst gekk sóknarleikurinn vel. Eftir að Fram komst yfir, 7:5, eftir um 12 mínútur kom 10 mínútna kafli þar sem fátt gekk Framliðinu í hag, hvorki í vörn né sókn. Fyrir vikið gáfust fá færi á hraðaupphlaupum, sem eru eitt skæðasta vopn Safamýrarliðsins sem brátt verður Grafarholtsliðið.


Leikmenn Vals nýttu sér það og komust yfir, 12:9. Varnarleikur Framliðsins var ekki sannfærandi á þessum kafla auk þess sem Hafdís Renötudóttir náði sér lítt á strik í markinu og munar um minna. Reyndar voru markverðir Vals, Sara Sif Helgadóttir og Andrea Gunnlaugsdóttir, einnig daufar í dálkinn í fyrri hálfleik.

Valsliðið var marki yfir í hálfleik, 13:12, og hóf síðari hálfleikinn betur og komst fljótlega fjórum mörkum yfir, 18:14 og 19:15. Það var eins og neistan vantaði í Framliðið. Hann kveiknaði og Framliðið skoraði fimm mörk í röð og komst yfir, 20:19, með marki Þóreyjar Rósu Stefánsdóttur meðan liðið var í yfirtölu.


Valur svaraði með tveimur mörkum og var heldur sterkara á lokasprettinum þótt litlu munaði að Fram næði upphlaupi á allra síðustu sekúndum til að jafna metin og krækja í framlengingu.

Þrátt fyrir góðan varnarleik á báða bóga var markvarslan afar slök.


Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 9/5, Lovísa Thompson 7, Thea Imani Sturludóttir 7, Mariam Eradze 2, Elín Rósa Stefánsdóttir 1, Hulda Dís Þrastardóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 2, 20% – Sara Sif Helgadóttir 1.
Mörk Fram: Þórey Rósa Stefánsdóttir 7, Karen Knútsdóttir 7, Kristrún Steinþórsdóttir 4, Steinunn Björnsdóttir 3, Hildur Þorgeirsdóttir 2, Emma Olsson 2, Harpa María Friðgeirsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 5, 15,6%.


Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz

Handbolti.is var í Origohöllinni og fylgdist með leiknum í textafærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -