Verða áfram úti í kuldanum

Mynd/EPA

Félagslið frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi taka ekki þátt í Evrópumótum félagsliða á næsta keppnistímabili. Þeim verður synjað um þátttöku meðan að ekki hefur orðið breyting á ástandinu sem ríkir í Úkraínu eftir innrás Rússa í landið 24. febrúar. Þetta kemur fram í tilkynningu Handknattleikssambands Evrópu (EHF) en framkvæmdastjórn þess kom saman í gær til síns síðasta fundar á keppnistímabilinu.


Eftir innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar brást EHF hratt við og var félagsliðum og landsliðum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi vísað úr keppni án undantekningar. Rússar áfrýjuðu ákvörðuninni til áfrýjunardómastóls EHF en höfðu ekki erindi sem erfiði. Erindi þeirra var vísað til föðurhúsanna.


Um þessar mundir eru félagslið í Evrópu hvert á fætur öðru að sækja um þátttökurétt á Evrópumótum félagsliða vegna næsta keppnistímabils. EHF segir að úkraínskum félagsliðum sé velkomið að sækja um en huga verði vel að þátttöku þeirra til að tryggja öryggi allra þátttakenda.


Þegar er ljóst að landslið Rússlands og Hvíta-Rússlands taka ekki þátt í mótum á vegum EHF keppnistímabilið 2022/2023. M.a. var þeim meinuð þátttaka í umspili fyrir HM á næsta ári. Einnig var landsliðum annarra þjóða boðin þátttaka í stað Rússlands og Hvíta-Rússlands á EM og HM yngri landsliða sem fram fara í sumar.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -