- Auglýsing -
- Auglýsing -

Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

Þrír fræknir. Einar Magnússon, Hamburger SV, er á milli Dankersen-leikmannanna Ólafs H. Jónssonar og Axels Axelssonar. Einar og Axel voru þekktir fyrir sín þrumuskot.
- Auglýsing -

Þegar Axel Axelsson, Fram, ákvað að feta í fótspor Geirs Hallsteinssonar, FH, og gerast leikmaður í Vestur-Þýskalandi 1974, munaði ekki miklu að Geir hafi haldið heim á leið eftir sitt fyrsta keppnistímabil 1973-1974. Geir ætlaði þá að halda merki Birgis Björnssonar hjá FH á lofti, en Birgir ákvað að leggja skóna á hilluna. Geir hafði hug á að taka að sér þjálfun FH-liðsins ásamt Birgi og leika með liðinu.


Þessi ákvörðun Geirs skapaði mikinn óróa hjá Göppingen, þar sem þrír leikmenn og þjálfari stigu fram og hótuðu að hætta hjá Göppingen ef Geir léki ekki með liðinu. Það varð til þess að forráðamenn Göppingen gerðu allt til að halda í Geir, sem var lykilmaður og markahæsti leikmaður liðsins. Eftir að Geir hafði fengið gott tilboð, lét hann undan og ákvað að leika áfram með Göppingen, sem hafði sýnt Gunnari Einarssyni, FH, áhuga.

Vildi Axel og Björgvin

Göppingen lék í suðurdeild „Bundesligunnar“ en Axel Axelsson gerðist leikmaður með TSV Grün-Weiß Dankersen, sem lék í norðurdeildinni, sem þótti sterkari með Gummersbach sem flaggskip. Fyrir HM í Austur-Þýskalandi í byrjun árs 1974, höfðu tvö þýsk lið augastað á Axel; Hüttenberg og Dietzenbach, en síðan kom Dankersen inn í myndina og Axel tók tilboði félagsins, sem hafði einnig áhuga að fá línumanninn snjalla Björgvin Björgvinsson, félaga Axels hjá Fram. Hann var ekki tilbúinn að fara til Þýskalands.

„Tvíburarnir“ Axel Axelsson og Björgvin Björgvinsson.

Axel vakti strax mikla athygli hjá Dankersen, sem var frá sex þúsund manna bæ fyrir utan Minden. Það gekk á ýmsu; Axel meiddist á hægri olnboga og var frá keppni í mánuð og þá nefbrotnaði hann. Axel varð bikarmeistari með Dankersen sem lagði TSV Rintheim að velli í úrslitaleik, 15:14. Dankersen varð í öðru sæti, á eftir Gummersbach, í norðurdeildinni og komst í undanúrslit, þar sem liðið vann Hofweier og lék síðan til úrslita gegn Gummersbach í Dortmund. Hansi Schmidt og félagar í Gummersbach fögnuðu sigri í úrslitaleiknum í Dortmund, 13:7. Þjálfari Dankersen, Hanz Zulk, hélt Axel á bekknum og hafði Axel hug á að fara frá félaginu, þar sem hann var ekki sáttur við þjálfarann. Nokkur félög vildu fá hann til sín, en hann ákvað að vera áfram hjá Dankersen eftir að þjálfarinn var látinn fara.

Geir og samherjar í Göppingen höfnuðu í sjötta sæti í suðurdeildinni tímabilið 1974-1975.

Ólafur til Dankersen

Dankersen hafði mikinn áhuga að fá íslenskan línumann sem makker með Axel, sem var þekktur fyrir eitraðar línusendingar. Félagið leitaði til Ólafs H. Jónssonar, Val, sem svaraði kallinu og gekk til liðs við Dankersen 1975. Félagið vann þá bikarmeistaratitilinn með því að vinna Dietzenbach í úrslitaleik, 13:12. Ólafur skoraði fjögur mörk, Axel tvö.

Dankersen vann einnig Dietzenbach í undanúrslitum „Bundesligunnar“ og mætti Gummersbach í úrslitaleik í Frankfurt. Aftur mátti Dankersen þola tap fyrir Gummersbach, 12:11. Þarna lék Hansi Schmidt kveðjuleik sinn með Gummersbach. Þá sagði Dieter „Jimmy“ Waltke, landsliðsmaður og leikmaður Dankersen. „Þar sem Hansi er hættur, verðum við meistarar á næsta ári!“ Það gekk eftir.

Dankersen varð meistari 1977 með því að vinna Grosswallstadt í úrslitaleik, 21:20, í Dortmunder Westfalenhalle. Axel skoraði sigurmarkið úr vítakasti 20 sek. fyrir leikslok. Gummersbach komst ekki í undanúrslit þetta ár; Hansa Schmidt var sárt saknað.

Kristbjörg Magnúsdóttir varð tvisvar Vestur-Þýkalandsmeistari með TuS Eintracht Minden.

Meistarahjón

Kristbjörg Magnúsdóttir, KR, eiginkona Axels varð tvisvar sinnum Vestur-Þýskalandsmeistari með liði sínu TuS Eintracht Minden; 1975 og 1976, og einu sinni bikarmeistari 1977. Þannig að hún og Axel tóku á móti bikurum með liðum sínum; sömu þrjú árin.

Geir fór heim – Gunnar út!

Snúum okkur aftur að Geir Hallsteinssyni, sem ákvað að koma heim rétt áður en keppnistímabilið 1975-1976 hófst í Þýskalandi. Geir sagði að ástæðan hafi verið ofnæmi. „Ég er ofnæmissjúklingur, sá sjúkdómur er því miður í fjölskyldunni og hann kom fram í mér eftir komuna til Þýzkalands. Upphafið að þessu var að ég fékk einhvern vírus sem síðan leiddi til þess að ég fékk köst, þar sem ég átti óskaplega erfitt með að ná andanum. Liðslæknirinn í Göppingen vildi leggja mig inn á sjúkrahús ytra en ég vildi fara heim,“ sagði Geir, sem gekkst undir nefaðgerð um sumarið. „Ég þoldi illa loftlagsbreytinguna þegar ég kom aftur til Göppingen,“ sagði Geir sem kvaddi Göppingen í fullu samkomulagi.

Geir Hallsteinsson í leik með Göppingen.

Gunnar Einarsson, FH, hélt uppi merki Geirs og gekk til liðs við Göppingen 1975 og var í herbúðum liðsins til 1979. Ólafur, bróðir hans, gerðist leikmaður 2. deildarliðs Donzdorf 1975 og stóð sig vel. Þegar ljóst var að liðið kæmist ekki upp úr 2. deild, gekk Ólafur til liðs við Göppingen til að taka þátt í lokabaráttunni um fall. Donzdorf ætlaði ekki að samþykkja félagaskipti Ólafs, en þá greip borgarstjóri Göppingen í taumana; sagði að ef liðið sleppti ekki Ólafi, þá yrði lokað á að Donzdorf fengi aðgang á íþróttahöllinni í Göppingen, þar sem liðið lék heimaleiki sína. Göppingen lék aukaleiki um fall við Bad Schwartau í norðurdeildinni; fagnaði sigri heima 26:11, en tapaði úti 16:25. Bræðurnir skoruðu samtals 10 mörk í fyrri leiknum; Gunnar var potturinn og pannan í leik Göppingen og skoraði 6 mörk, Ólafur skoraði 4 mörk.

Gunnar var áfram hjá Göppingen, en Ólafur hélt heim á leið og til liðs við Víking.

Þrír fræknir. Einar Magnússon, Hamburger SV, er á milli Dankersen-leikmannanna Ólafs H. Jónssonar og Axels Axelssonar.

Einar til Hamburgar

Einar Magnússon, Víkingi, gerðist leikmaður með Hamburger SV 1975, en liðið féll í 2. deild 1976. Einar hélt áfram að leika með liðinu í 2. deild, 1976-1977. Hann var eina skytta liðsins og tekinn úr umferð í hverjum leik. Það breyttist þegar Guðjón Magnússon, sem lék með Einari hjá Víkingi, kom til liðsins frá Lugi í Svíþjóð í byrjun árs 1977. Eftir það skoruðu þeir félagar um 80% af mörkum Hamburger.

Eftir keppnistímabilið höfðu fimm félög áhuga á að hafa Einar í herbúðum sínum; Hamburger SV, Reinhausen, Dietzenbach, Kiel (vildi einnig fá Guðjón) og Polizei Hannover, sem Einar valdi. Hannoverliðið var ungt og efnilegt; hafði tryggt sér sæti í nýrri 14 liða „Bundesligunni“ 1977-1978. Einar gerði tveggja ára samning.

Hannover féll úr „Bundesligunni“ og ákvað Einar að loka samningi sínum við liðið og hélt heim. Læknar ráðlögu honum að taka sér hvíld frá handknattleik, þar sem hann var slæmur í hné. Einar sagðist þá hafa verið þreyttur á að vera tekinn úr umferð í hverjum leik og þá hafi stöðug fallbarátta með Hamburger og Hannover verið þreytandi.

Polizei Hannover lék aðeins þetta eina keppnistímabil í „Bundesligunni“. Einar á markamet liðsins; 86/23 mörk, sem stendur enn óhaggað! þar sem liðið hefur verið lagt niður.

Ólafur Einarsson skorar í leik með Donzdorf.

Eins og kálfur á vorin

Einar var ekki eini Íslendingurinn sem fékk á sig „yfirfrakka“ í nær hverjum leik. Það mátti Axel Axelsson þola og einnig Ólafur Einarsson er hann lék með Donzdorf í 2. deild 1975-1976. Ólafur lék 16 leiki með liðinu og skoraði 92 mörk. Hann var tekin úr umferð í 14 leikjum, en í þeim tveimur leikjum sem hann var ekki eltur, var hann eins og kálfur að vori, skoraði 9 mörk í báðum leikjunum.

Björgvin til Bremen

Björgvin Björgvinsson gekk til liðs við TV Gramke Bremen; nýliða í „Bundesligunni“ 1978 og lék með liðinu tvö keppnistímabil, til 1980. Seinna keppnistímabilið lék Gunnar Einarsson einnig með liðinu, en hann kom frá Göppingen. Samvinna Gunnars og Björgvins var mjög góð. Þeir héldu heim á leið 1980.

* Ólafur H. Jónsson ákvað að yfirgefa Dankersen 1979 og gerast þjálfari og leikmaður Þróttar. Jón Pétur, Val, bróðir Ólafs, fór til Dankersen og lék níu leiki keppnistímabilið 1979-1980.

* Axel Axelsson hélt heim 1980 og gerðist leikmaður og þjálfari Fram. Björgvin gekk einnig til liðs við Fram og urðu þeir félagar Íslandsmeistarar utanhúss með félaginu 1980.

* Þorbergur Aðalsteinsson, Víkingi (nýorðinn 22 ára), skrifaði undir eins árs samning við Göppingen 1978, en hann fékk fá tækifæri, lék tíu leiki og skoraði fjögur mörk. Þorbergur meiddist í byrjun árs, tognaði á fæti, og lék lítið eftir það. Hann hélt heim á leið 1979 og gekk aftur til liðs við Víking.

Ágúst Svavarsson var Svíþjóðarmeistari er hann kom til Vestur-Þýskalands 1978.

Lurkurinn á ferðinni

* Ágúst Svavarsson, ÍR, sem fékk viðurnefnið „Lurkurinn frá Malmberget“ vegna skothörku sinnar er hann lék með sænska liðinu Malmberget. Ágúst gekk til liðs við Drott í Halmstad 1977 og varð sænskur meistari með liðinu 1978. Hann var þriðji markahæsti leikmaður “Allsvenskan” með 134 mörk og er talinn einn besti leikmaðurinn í sögu Drott, sem vildi halda honum. Ágúst ákvað að fara til Þýskalands 1978 og gerast leikmaður með 2. deildarliðinu TUS Spenge, sem var frá 40 þús. manna bæ rétt við Minden. Hann lék með liðinu tvö keppnistímabil á árunum 1978-1980. Ágúst var kallaður „Gus“ í Spenge og var hann markakóngur seinna tímabilið með 215 mörk í 26 leikjum. Hann skoraði 15 mörk í afar þýðingarmiklum fallbaráttuleik gegn Hagen; sigurmarkið úr vítakasti þegar þrjár sek. voru eftir, 26:25.

Mörg lið í „Bundesligunni“ vildu fá Ágúst til sín og hafði Kiel áhuga. Ágúst, sem skoraði 7-9 mörk í leik, valdi Íslendingaliðið Göppingen 1980-1982.

Viggó Sigurðsson var Spánarmeistari er hann kom til Vestur-Þýskalands 1980.

Viggó frá Spáni

Viggó Sigurðsson, sem var Spánarmeistari með Barcelona á tímabilinu 1979-1980, tók tveggja ára tilboði frá Bayer Leverkusen 1980 og lék með liðinu fram til 1982, tvö keppnistímabil. Barcelona reyndi að fá hann aftur til sín 1981, en Leverkusen vildi ekki sleppa Viggó.

Sigurður Gunnarsson, Víkingi (20 ára), gerði einnig samning við Bayer Leverkusen 1980, en fékk lítið að spreyta sig; lék fimm leiki og skoraði tvö mörk. Leverkusen stóð ekki við samninga við Sigurð. Þess má geta að Göppingen vildi fá hann til sín, til að leika við hlið Ágústar. Sigurður hafnaði tilboðinu og ákvað að ganga til liðs við Víking, 1981.

Í næstu grein verður sagt frá eftir hvaða leiðum landsliðsmenn Íslands komu sér á framfæri í Vestur-Þýskalandi; á þeim árum sem afkastamiklir umboðsmenn þekktust ekki.

Auf Wiedersehn

Fyrri greinar Sigmundar um brautryðjendur sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Geir himnasending fyrir Göppingen

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -