Enn vofir brottvísun yfir Vardar

Leikmenn Vardar fagna sigri eftir kappleik. Mynd/EPA

Aftur eru fjárhagsvandræði meistaraliðs Norður Makedóníu í karlaflokki, Vardar Skopje, komin undir smásjá Handknattleikssambands Evrópu, EHF. Balkan-Handball segir frá því í morgun að til standi hjá EHF að útiloka Vardar frá keppni í Evrópukeppni félagsliða á næstu leiktíð. Vardar hefur á undanförnum árum átt sæti í Meistaradeildinni og vann deildina m.a. 2017 og 2019.


Svipað var upp á teningnum fyrir ári. Þá hótaði EHF að vísa Vardar úr keppni vegna skulda félagsins við EHF vegna þátttöku í Meistaradeildinni. Úr málinu tókst að greiða áður en EHF skellti í lás. Samkvæmt frétt Balkan-handball hefur sótt í sama farið á nýjan leik. Mun ákvörðunar að vænta af hálfu EHF í lok vikunnar.Norður Makedónía á eitt tólf sæta í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki fyrir meistaralið sitt. Vardar hefur unnið meistaratitilinn í Norður Makedóníu nokkrum sinnum í röð á síðasta áratug. Félagið hefur hinsvegar átt í mesta peningabasli árum saman og síst mun hafa dregið úr erfiðleikunum á tímum kórónuveirunnar.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -