- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Þórir stýrði Noregi til sigurs á HM í þriðja sinn

Þórir Hergeirsson fagnar þegar sigur á heimsmeistaramótinu var í höfn á dögunum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu til sigurs í þriðja sinn á heimsmeistaramóti í handknattleik í kvöld. Norska landsliðið vann Ólympíumeistara Frakka með sjö marka mun, 29:22, í Granolles eftir hreint magnaðan úrslitaleik. Noregur hefur fjórum sinnum unnið heimsmeistaratitilinn, jafn oft og Rússar.

Sigurgleði. Heimsmeistarar Noregs í handknattleik kvenna 2021. Mynd/EPA


Þegar þrjá mínútur voru til loka fyrri hálfleiks benti e.t.v. ekki margt til þess að Noregur ynni leikinn þegar liðið var sex mörkum undir, 16:10.


Tvö mörk rétt fyrir hálfleik jók sjálfstraustið í norska liðinu. Leikmenn komu sem grenjandi ljón til leiks í síðari hálfleik og komust yfir í fyrsta sinn, 19:18, þegar sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Eftir það litu þær norsku aldrei um öxl og hreinlega keyrðu yfir franska liðið sem tapaði sjálfstraustinu niður jafnt og þétt. Ekki bætti úr skák fyrir Frakka að Silje Solberg fór hamförum í norska markinu. Á um 20 mínútna kafla skoraði norska liðið 16 mörk gegn fjórum og hafði ótrúlega yfirburði.

Síðan Þórir tók við sem aðalþjálfari Noregs eftir HM 2009 hefur hann unnið til þrettán verðlauna, þar af eru þrenn gullverðlaun frá heimsmeistaramótum, fern á Evrópumótum og ein gullverðlaun á Ólympíuleikum.

Fögnuður leikmanna norska landsliðsins eftir sigur á heimsmeistaramótinu í kvöld. Mynd/EPA


Þar með er norska landsliðið ríkjandi heims- og Evrópumeistari. Það er í fjórða sinn í sögunni sem Norðmenn eru handhafar beggja titlanna á sama tíma.

Norska landsliðið vann alla leiki sína á Evrópumótinu fyrir ári og lauk keppni á HM að þessu sinni með átta sigurleikjum og einu jafntefli.

Mörk Noregs: Henny Reistad 6, Kari Brattset Dale 5, Stine Bredal Oftedal 5, Nora Mørk 5, Malin Aune 3, Veronica Kristiansen 2, Sanna Solberg-Isaksen 2, Marit Jacobsen 1.
Mörk Frakka: Allison Pineau 4, Pauletta Foppa 3, Coralie Lassource 2, Oceane Sercien Ugolin 2, Grace Zaadi Deuna 2, Laura Flippes 2, Lucie Granier 2, Estelle Nze Minko 2, Meline Nocandy 1, Tamara Horacek 1, Alicia Toublanc 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -