- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Þreytulegur forseti ruglaðist í ríminu

Hassan Moustafa forseti Alþjóða handknattleikssambandsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Hassan Moustafa, forseti alþjóða handknattleikssambandsins virtist illa upplagður þegar hann ávarpaði keppendur í íþróttahöllinni í Granolles í kvöld áður en veitt voru verðlaun til landsliðanna þriggja í lok heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik.

Í stuttu ávarpaði ruglaðist Moustafa illilega. Sagði hann Dani hafa hafnaði í öðru sæti og Frakka í þriðja sæti. Greinilegt var að einhver sem stóð skammt frá forsetanum reyndi að koma skilaboðum til hans. Stöðvaði Moustafa þá mál sitt um stund, pírði augun og gretti sig, áður en hann hélt áfram máli sínu, eins og ekkert hefði ískorist. 

Þegar kom að verðlaunaafhendingu var Moustafa seinn í snúningum. Dróst hann aftur úr við veitingu verðlaunapeninga. Tók hann þá til við að deila út tuskuböngsum til leikmanna heimsmeistaraliðs Noregs.  Að þessu loknu munaði litlu að hann afhenti Katrine Lunde, markverði norska landsliðsins, heimsmeistarabikarinn í stað Stine Oftedal, fyrirliða. 

Moustafa er 77 ára gamall. Í byrjun nóvember hlaut hann rússneska kosningu til áframhaldandi veru á forsetastóli til næstu fjögurra ára. Moustafa hefur verið forseti IHF í 21 ár og hefur síður en svo verið óumdeildur. Raunaleg framganga hans að þessu sinni verður vart til að auka hróður hans en kemur vafalaust ekki í veg fyrir framboð að fjórum árum liðnum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -