Krían sendi Fjölni í sumarfrí

Daði Laxdal Gautason t.h. ásamt samherjum sínum við upphafi keppnistímabilsins síðasta haust. Mynd/Tinna

Kría leikur til úrslita við Víking um sæti í Olísdeild karla á næsta tímabili eftir að hafa lagt Fjölnismenn með sex marka mun, 31:25, í oddaleik í Dalhúsum í kvöld í hörkuleik. Fjölnir var marki yfir í hálfleik, 15:14, en þegar kom fram yfir miðjan hálfleikinn gáfu leikmenn Fjölnis eftir.
Einvígi Víkings og Kríu hefst á laugardaginn í Víkinni. Vinna þarf tvo leiki til þess að öðlast þátttökurétt í Olísdeild karla á næsta keppnistímabili.

Víkingur vann Hörð í oddaleik í Víkinni fyrri í kvöld eins og getið er um hér.


Viðureign Fjölnis og Kríu var jöfn í rúmlega 45 mínútur og vart mátti á milli sjá. Gríðarlega barátta var á milli leikmanna og oft tekist fast á. Kría náði í fyrsta sinn tveggja marka forskoti, 23:21, þegar 12 mínútur voru eftir.

Forskotið var komið upp í þrjú mörk þegar átta mínútur voru eftir af leiktímanum og skömmu síðar var munurinn kominn upp í fjögur mörk, 26:22. Fjölnismenn reyndu hvað þeir gátu. Þeir fóru í maður á mann en allt kom fyrir ekki.


Sterkur varnarleikur Kríu, ekki síst í síðari hálfleik sló ungt og lítt reynt lið Fjölnis út af laginu. Ekki bætti úr skák að Sigurður Ingiberg Ólafsson tók upp á því að verja allt hvað af tók síðasta stundarfjórðunginn. Ekki varð það til að létta róður Fjölnismanna sem mæta reynslunni ríkari til leiks í haust.


Mörk Fjölnis: Aron Ingi Heiðmarsson 6, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 4, Alex Máni Oddnýjarson 4, Óðinn Freyr Heiðmarsson 3, Brynjar Óli Kristjánsson 2, Elvar Otri Hjálmarsson 2, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 2, Goði Ingvar Sveinsson 1, Viktor Berg Grétarsson 1.

Mörk Kríu: Kristján Orri Jóhannsson 11, Viktor Andri Jónsson 5, Daði Laxdal Gautason 4, Henrik Bjarnason 4, Filip Andonov 2, Vilhjálmur Geir Hauksson 1, Alex Viktor Ragnarsson 1, Gunnar Valur Arason 1, Arnar Jón Agnarsson 1, Hlynur Bjarnason 1.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -