Krókur á móti bragði í austri

Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Blásið verður til leiks í Austur Evrópudeildinni í handknattleik karla (SEHA Gazprom League) í haust með breyttu sniði frá undanförnum árum. Í stað þess að mörg af öflugri liðum austurhluta Evrópu taki þátt munu eingöngu félög frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi verða með í deildinni leiktíðina 2022/2023.


Með þessu telja forsvarsmenn deildarinnar sig komna með krók á móti bragði eftir að Handknattleikssamband Evrópu, EHF, útilokaði lið frá löndunum tveimur frá þátttöku á mótum EHF vegna innrásar Rússa í Úkraínu og fylgispektar hvít-rússneskra yfirvalda við innrásina.


Átta lið taka þátt í Austur Evrópudeildinni leiktíðina 2022/2023. Chekhov Medvedi, CSKA, Neva frá St. Pétursborg og Permskie Medvedi frá Rússlandi og Meshkov Brest, SKA Minsk, Gomel og Masheka frá Hvíta-Rússlandi.


Sem fyrr verður rússneska stórfyrirtækið Gazprom helsti bakhjarl keppninnar enda mun hún bera nafn fyrirtækisins.


Áður en keppni hefst í haust verður þess freistað að ljúka deildarkeppninni sem hófst á síðasta ári með fjölbreyttum hópi liða en var slegið á frest eftir innrás Rússa í Úkraínu. Átta liða úrslit eiga að fara fram í lok ágúst og úrslitahelgin, Final4, verður í Króatíu 3. og 4. september eins og áður hefur verið sagt frá á handbolti.is.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -