- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nú setjum við stefnuna á þann stóra

Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs, í þann mund að lyfta deildarbikarnum fyrir sigur í Olísdeildinni 2021. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Það er frábært að vinna deildarmeistaratitilinn með sínu uppeldisfélagi, alveg stórkostlegt,“ sagði hin þrautreynda Martha Hermannsdóttir í samtali við handbolta.is í Framhúsinu í dag eftir að KA/Þór hafði tekið á móti deildarmeistaratitlinum í Olís deild kvenna eftir jafntefli við Fram í lokaumferð deildarinnar, 27:27. Þetta er fyrsti deildarmeistaratitill KA/Þórs sem vann sinn fyrsta stóra bikar í meistaraflokki kvenna í byrjun september í Meistarakeppni HSÍ.


„Nú er stefnan sett á að vinna næsta bikar sem er í boði,“ sagði Martha og glotti en framundan er úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn þar sem KA/Þór og Fram sitja yfir í fyrstu umferð.


„Ég hefði ekki látið mér detta í hug þegar við komum hingað í Framhúsið í byrjun september og unnum meistarar meistaranna að átta mánuðum seinna kæmum við aftur í Framhúsið til þess að lyfta öðrum bikar. Það er sturlað að koma á þennan sterka heimavöll Framliðsins og vinna deildarmeistaratitilinn,“ sagði Martha sem lyfti bikarnum í leikslok í dag eins og hún gerði í byrjun september þegar KA/Þór vann Fram í Meistarakeppni HSÍ.


Eftir þungan fyrri hálfleik þar sem KA/Þór var undir í hálfleik, 17:12, snerist dæmið við í síðari hálfleik. Barátta vaknaði og jafnt og þétt vann liðið upp forskot Fram. Lokamínútur leiksins voru æsilega spennandi.

„Við náðum ekki að klukka leikmenn Fram í vörninni í fyrri hálfleik. Við vorum ekki í takt. Í hálfleik fórum við yfir stöðuna og lögðum upp með að vera framar í vörninni í síðari hálfleik. Um leið og við komust í að brjóta og komast í snertinguna þá duttum við í gírinn. Stemningin kom um leið. Það voru 30 mínútur eftir og við vorum staðráðnar í að leggja allt í þetta og það tókst,“ sagði Martha sem var skiljanlega í sjöunda himni. Hún hefur áður orðið deildarmeistari með Haukum fyrir margt löngu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -