- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Er mjög stórt fyrir Barein

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Barein. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Þetta er mjög stórt fyrir Barein og það var talsverð pressa á okkur að vinna og því var afar kærkomið að standa undir þeirra pressu. Reyndari leikmenn tókst að standast álagið þegar mest á reyndi,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein í handknattleik karla, í samtali við handbolta.is í morgun eftir að Barein lagði Japan, 32:30, í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Tókýó. Japan var marki yfir í hálfleik, 17:16.


Þetta var fyrsti sigur Barein á Ólympíuleikum en landsliðið er nú með í fyrsta skipti og hafði fyrr í keppninni tapaði í tvígang með eins marks mun fyrir Svíum og Portúgölum. Aron var að vonum kátur þegar fyrsti sigurinn var í höfn.


„Þetta var mjög jafn leikur tveggja liða sem þekkjast mjög vel og hafa oft mæst á síðustu árum. Liðin skiptust á að hafa forystu en það sem munaði miklu í lokin var að okkur tókst að leysa 5/1 vörn japanska liðsins á lokakaflanum. Við höfðum búið okkur vel undir það. Einnig fengum við nokkur góð skot varin í lokin sem munaði miklu. Þar á ofan náðum við að vera rólegri en áður og sýna meiri skynsemi í okkar leik á síðustu mínútum og gera færri mistök. Menn sýndu andlegan styrk í lokin,“ sagði Aron.

„Sjeik Kaled, sem er einn af sonum konungs Barein, hringdi í okkur á fundi fyrir leikinn í gær og hvatti menn til dáða. Það jók enn á pressuna frá Barein á liðið og þess vegna var enn mikilvægara að okkur tókst að standa undir væntingum,“ sagði Aron ennfremur við handbolta.is.


Enn er von hjá Barein um að komast í átta liða úrslit leikanna en til þess að svo megi verða þurfa Aron og leikmenn hans að vinna Egypta á sunnudaginn. Egyptar eru með afar öflugt lið um þessar mundir og hefur auk þess haft gott tak á Bareinum á handknattleiksvellinum í gegnum tíðina.

Aron Kristjánsson og liðsmenn landsliðs Barein fagna kærkomnum sigri í Tókýó í nótt að íslenskum tíma. Mynd/EPA

„Það er svolítið öðruvísi að mæta Arabaþjóð en evrópskri í svipuðum styrkleika. Til að mynda hefur okkur stundum gengið vel gegn Katar.
Egyptar eru hinsvegar ótrúlega sterkir um þessar mundir með afar góðan efnivið og öflugan hóp af yngri leikmönnum. Þeir eru líkamlega sterkir og eru hærri en við. Þar erum við eftirbátar og því er ljóst að framundan er krefjandi verkefni fyrir okkur að mæta þeim þáttum þar sem þeir eru sterkari.

Við munum selja okkur dýrt og leggja allt í sölurnar til þess að vinna og ná fjórða sætinu,“ sagði keppnismaðurinn Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í morgunsárið að íslenskum tíma.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -