Gísli Þorgeir mætti sprækur til leiks

Gísli Þorgeir Kristjánsson lét til sín taka í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Gísli Þorgeir Kristjánsson fór á kostum í dag þegar SC Magdeburg treysti stöðu sína í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik með þriggja marka sigri á Wetzlar á útivelli, 29:26.


Gísli Þorgeir fékk högg á vinstra lærið í leik við Sporting í Evrópudeildinni á síðasta þriðjudag. Hann virðist hafa náð góðum bata og skoraði sex mörk í níu tilraunum í Buderus Arena og var markahæstur í liði Magdeburg.


Ómar Ingi Magnússon var næstur á eftir Gísla Þorgeiri með fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti. Þar með er Ómar Ingi orðinn markahæstur í deildinni, alltént eitthvað fram eftir degi. Hann hefur skoraði 173 mörk, tveimur fleiri en Bjarki Már Elísson og þremur fleiri en Hans Lindberg.


Wetzlar var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik í viðureigninni við Magdeburg. Taflið snerist við í síðari hálfleik eins og úrslitin gefa til kynna, ekki síst síðasta stundarfjórðung leiksins.


Magdeburg er með 48 stig eftir 26 leiki. Füchse Berlin er næst á eftir með 41 stig og Kiel er með 40 stig. Bæði lið eiga að leika síðar í dag. Hvert lið þýsku 1. deildarinnar leikur 34 leiki.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -