Markadrottningin skrifar undir þriggja ára samning

Tinna Sigurrós Traustadóttir hefur samið við Selfoss til þriggja ára. Mynd/Selfoss

Tinna Sigurrós Traustadóttir, markadrottning Grill66-deildar kvenna og unglingalandsliðskona í handknattleik, hefur framlengt samningi sínum við handknattleiksdeild Selfoss til næstu þriggja ára.


Tinna Sigurrós, sem er 18 ára, var máttarstólpi í sterku Selfossliði sem vann Grill66-deildina í vetur og öðlaðist sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili. Hún var m.a. markahæsti leikmaður deildarinnar en hún skoraði 162 mörk í 19 leikjum, eða hálft níunda mark að meðaltali í leik.


„Deildin er gríðarlega ánægð að Tinna skuli framlengja við liðið og verður spennandi að fylgjast með Selfossliðinu næsta vetur í efstu deild,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar Selfoss þar sem þess er ennfremur getið að fleiri tíðindi megi vænta af leikmannamálum meistaraflokks á næstunni.


Kvennalið Selfoss er ennþá án þjálfara eftir að Svavar Vignisson lét af störfum á dögunum.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -